Elísabet Brynhildardóttir

Elísabet Brynhildardóttir útskrifaðist frá University College for the Creative Arts árið 2007. Hún hefur tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og er virkur þáttakandi í öðru myndlistartengdu starfi. Verk hennar hafa meðal annars verið sýnd í Kling & Bang, Verksmiðjunni á Hjalteyri, i8 Gallery, Listasafni Akureyrar, og Nýlistarsafninu ásamt fleiri stöðum bæði hér heima og erlendis. 

 

Elísabet vinnur í fjölbreytta miðla þó teikningar og skúlptúrar séu þar mest áberandi. Í verkum sínum skoðar hún teikninguna náið og mörk hennar við aðra miðla. Hún veltir fyrir sér samband okkar við efnisheiminn og þolmörk þess þar sem hugmyndir okkar um hverfulleika og tíma eru áberandi. Samband manns og listaverks er henni jafnframt hugleikið þar sem líkamleg nærvera áhorfandans getur skipt sköpum fyrir upplifun verka hennar; þar sem hreyfingar og afstaða hans hafa bein áhrif á tilvist listaverksins.